Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 432. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.

Þskj. 1203  —  432. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur hún fjallað um það á ný og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Guðmund Inga Ásmundsson frá Landsneti.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði sú almenna regla að flutningsfyrirtækið, eins og önnur sérleyfisfyrirtæki (dreifiveitur, hitaveitur og vatnsveitur), skuli ávallt vera í meirihlutaeigu opinberra aðila. Þannig verði lögbundið að slík starfsemi sé undir yfirráðum opinberra aðila og um leið að gætt sé lagasamræmis.
    Í tilefni af athugasemdum sem fram komu í 2. umræðu málsins tekur meiri hlutinn fram að ákvæði 4. gr. frumvarpsins eru almenn og fella ekki úr gildi ákvæði til bráðabirgða XII raforkulaga, nr. 65/2003, sem halda mun gildi sínu þar til Alþingi tekur ákvörðun um annað. Bráðabirgðaákvæðið felur í sér að eigendum hlutafjár í flutningsfyrirtækinu er einungis heimilt að framselja hlutafé sitt til annarra hlutafjáreigenda í fyrirtækinu en ekki til aðila utan þess.
    Meiri hlutinn bendir jafnframt á að þær breytingar sem gerðar eru í 4. gr. frumvarpsins á 1. mgr. 8. gr. raforkulaga breyta ekki ákvæðum sérlaga um einstök orkufyrirtæki hvað heimildir þeirra til sölu eignarhluta í Landsneti varðar.
    Niðurstaða meiri hlutans er því sú að umrædd breyting feli ekki í sér yfirlýsingu um sölu á minnihlutaeign í Landsneti. Hér er eingöngu um að ræða almenna breytingu á lagagrein í gildandi raforkulögum sem ætlað er að tryggja að lágmarki meirihlutaeign opinberra aðila í fyrirtækinu. Aðrar greinar standa ásamt bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um hvaða fyrirtæki eiga í Landsneti. Öll þau fyrirtæki sem eiga í Landsneti nú eru í 100% eigu opinberra aðila.
    Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 28. maí 2008.



Katrín Júlíusdóttir,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Einar Már Sigurðarson.



Guðni Ágústsson.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Björk Guðjónsdóttir.